Hestaferðir

Hestaferðir eru ávallt með leiðsögumanni. Ferðirnar eru í boði bæði fyrir vana reiðmenn og þá sem ekki hafa reynslu. 

1 klst. Ferðin hefst með vaði yfir Heydalsá og meðfram ánni niður að sjó og þaðan til baka gegnum skóginn og meðfram veginum heim í Heydal.

2 klst. Tveggja tíma ferðin liggur inn hinn fallega gróna Heydal og til baka yfir ána og síðan áfram eins og klst.ferðin.                                       

Dagsferð. Um nokkrar leiðir er að velja fyrir lengri ferðirnar. 

Verðskrá 2024

1 klst. 9900 kr.
2 klst. 13800 kr.
Dagsferð 24900 kr.

Teymt undir börn
15 mín. 3000 kr.

 

 

 

Kajakar

Kajaksiglingar með leiðsögn
Mjóifjörður er kjörinn fyrir kajaksiglingar. Við hefjum siglingar frá Látrum 14 km frá Heydal og róum út að selalátrum skammt undan ströndinni. Ef við erum heppin gæti hvalur orðið á leið okkar. Fegurðin er einstök, Drangajökull og Snæfjallaströndin. Í boði eru bæði tveggja klst. ferðir og 5 klst. ferðir. Vinsamlegast athugið að kajakferðir eru háðar veðri. Ekki er róið í hvassviðri.

Verðskrá 2024

2 klst. 8700 kr. (1 klst. í akstur og undirúning, 1 klst. á sjó)

5 klst. 24900 kr. (1 klst. í akstur og 4 klst. á sjó)

Kajakleiga án leiðsagnar. Lágmark tveir í ferð og aðeins fyrir reynda ræðara.

Verðskrá 2024

Hálfur dagur 5000 kr.
Heill dagur 8500 kr.

Athugið allar kajaksiglingar eru á eigin ábyrgð og miðast við lágmark tvo í ferð. 

Sundlaug, heitir pottar og náttúrulaug

Sundlaug, heitir pottar og náttúrulaug. Tvívegis hefur verið borað eftir heitu vatni með góðum árangri í Heydal.

Sundlaug og heitur pottur í gamla fjárhúsinu. Fjárhúsi var breytt í gróðurhús með suðrænum gróðri og þar er sundlaug og heitur pottur. Þar eru ræktuð kirsuber, epli, perur, jarðaber, hindber og plómur svo eitthvað sé nefnt. Þar má einnig finna vínvið, heslihnetutré jog kryddjurtir af ýmus tagi.  Ávextirnir eru notaðir í sultugerð fyrir hótelið.

Útipottar. Fyrir utan gróðurhúsið eru tveir pottar, unnir úr fjörugrjóti og skeljasandi. Sjávarbarið grjót var flutt úr fjöru, steypt í botninn og fyllt með hvítum sjávarsandi. 

Náttúrulaug á Galtarhrygg. Sagt er að Guðmundur góði hafi vígt hana. Sögusagnir herma að fólk með ýmsa krankleika hafi talið laugarbað í Galtarhryggslaug veita sér bót meina. 

Vinsamlegast athugið að öll dvöl og notkun á heitum pottum og sundlaug er á eigin ábyrgð. Gætið sérstaklega að yngri börnum sem aðeins mega vera á sundlaugarsvæðinu í fylgd fullorðinna.

Gönguferðir

Útivist í Heydal

Umhverfi Heydals er kjörið til útivistar. Gestir ferðaþjónustunnar hafa heilan dal til umráða. Dalurinn liggur að sjó og úr fjörunni er útsýni yfir á Snæfjallaströnd og Drangajökul. Eftir dalnum liðast Heydalsá sem á upptök sín uppi á heiði. Láglendi og hlíðar eru kjarri vaxin, en hrjóstrugt er þegar upp á fjöll er komið. Víða setja gil svip á landslagið og innst í dalnum er stuðlabergsbrú yfir Heydalsá og í gili Þverár eru margir litlir fossar og bergstandar.

Í Heydal eru margar gönguleiðir. Ganga má inn dalinn sem er gróðursæll eins og áður segir. Sáralítil umferð er á leið 633. Því skapast þar þægilegar gönguleiðir meðfram ströndinni og upp á Eyrarfjall. Einnig er hægt að ganga upp á fjöllin og yfir í næstu firði og dali. Ef lagt er á fjöll eru gestir beðnir að skilja eftir leiðaráætlun í móttöku. Athugið að gilin geta verið varasöm einkum á veturna og á vorin.

Sjá merktar gönguleiðir í gönguappinu Wapp

 

Veiði

Veiði

Ausuvatn er fjallavatn í rúmlega 400 metra hæð yfir sjávarmáli. Sleppt var seiðum í vatnið, í fyrsta skipti árið 1998. Nú veiðist þar vænn urriði. Það er ca tveggja tíma ganga upp að vatninu fyrir vana göngumenn. Hægt er að kaupa veiðileyfi í vatnið. Einnig er hægt að kaupa veiðileyfi í Fremra Selvatn sem er staðsett upp á Hörgshlíðarfjalli ca 10 km frá Heydal. Aka má þangað á fjórhjóladrifnum bílum. 

Fuglalíf og plöntulíf

Mikið fuglalíf er í Heydal, spörfuglar, vaðfuglar, endur og ránfuglar. Komið hefur verið upp skiltum með fuglategundunum í Heydal, alls 43 tegundum. Þrjú skilti eru staðsett niðri í fjöru, þrjú skilti við hótelið og tvö skilti á tjaldsvæði við Heydalsá. 

Mjög fjölbreytt plöntuúrval er í Heydal enda dalurinn allur kjarri vaxinn milli fjalls og fjöru. Birkiskógurinn í innri hluta dalsins er friðaður. Sjaldgæfasta plantan er skógelfting innst í dalnum. Talið er að hún hafi hjarað af jökulskeið ísaldarinnar. Hún vex aðeins í Ingólfsfirði og við Gerpi auk Heydals. Margar skógarplöntur hafa verið gróðursettar í samvinnu við Skjólskóga á svæðinu frá sjó að bænum. Heydalsbændur hafa einnig verið iðnir við að rækta grænmeti bæði heima við bæinn og inni í dal.

Í Heydal hafa verið gróðursettar yfir 120.000 skógarplöntur, frá þjóðvegi og inn í dal. Gróðursetningaátakið hófst með þátttöku í Viðbótarskógum, Galtarhryggsmegin árið 1998. Síðar í samstarfi við Skjólskóga og Skógræktina. Gróðursett eru tré árlega.

Norðurljósaferð

Norðurljósaferðir eru seldar á vegum ferðaskrifstofa, sjá frekari upplýsingar á ensku heimasíðunni.