Hestaferðir

Hestaferðir eru alltaf farnar með leiðsögumanni.
Við erum bæði með hesta fyrir byrjendur og fyrir fólk með reynslu.
Klukkutímaferðin hefst með vaði yfir Heydalsá og meðfram ánni niður að sjó og þaðan tilbaka eftir veginum heim í Heydal.
Tveggja tíma ferðin liggur inn hinn fallega gróna Heydal og tilbaka yfir ána og síðan áfram eins og klukkutímaferðin.

Um 4 – 5 leiðir er að velja fyrir lengri ferðir.
Af öryggisástæðum er ævinlega stigið af baki efst í brekkunni niður að gróðurhúsinu.

Verðskrá:
klukkutímaferð  8000 kr
Tveggja tíma ferð  11000 kr
Dagsferðir  20000 kr

Teymt undir börn
15 mín 2000 kr

Kajakar

Kajaksiglingar
Mjóifjörður er kjörinn fyrir kajaksiglingar. Við hefjum siglingar frá Látrum 14 km frá Heydal og róum út að selalátrum skammt undan ströndinni. Ef við erum heppin gæti hvalur orðið á leið okkar. Fegurðin er einstök hér framundan, Drangajökull og Snæfjallaströndin.
Í boði eru bæði tveggja tíma ferðir með akstri og undirbúningi 7000 kr
og 5 tíma ferðir á 20000 kr

Kajakleiga án leiðsagnar aldrei færri en tveir í ferð og aðeins fyrir reynda ræðara.
Hálfur dagur 5000 kr.
Heill dagur 8000 kr.

Vinsamlegast athugið að kajakferðir eru háðar veðri. Ekki er róið í hvassviðri.
Til að forðast innlögn ráðleggjum við að fara í ferðirnar á kvöldin og morgnana.
Athugið allar kajaksiglingar eru á eigin ábyrgð.

Sundlaug, heitir pottar og náttúrulaug

Viðarkynnt gufubað er á staðnum . Yfir sumarið er kveikt á því þriðjudaga, fimmtudaga  og laugardaga kl 21.

Í Heydal og nágrenni eru heitar laugar, pottar og sundlaug. Það er náttúrulaug á Galtarhrygg. Sagt er að Guðmundur góði hafi vígt hana. Sögusagnir herma að fólk með ýmsa krankleika hafi talið laugarbað í Galtarhryggslaug  veita sér bót meina. Tvívegis hefur verið borað eftir heitu vatni með góðum árangri í Heydal. Fjárhúsi var breytt í gróðurhús með suðrænum gróðri og þar er sundlaug og heitur pottur.Utan dyra eru þrír pottar með nýstárlegu sniði "Onsen" pottar unnir úr fjörugrjóti og skeljasandi. Áfram er unnið að þróun þessa einstaka baðsvæðis í samvinnu við Vatnavini. Í Hörgshlíð er stór manngerður pottur við sjóinn.
 
Vinsamlegast athugið að laugin og heitir pottar eru ætlaðir gestum okkar á hótelinu, veitingasalnum og tjaldsvæðinu.

Vinsamlegast athugið að öll dvöl og notkun á heitum pottum og sundlaug er á eigin ábyrgð.
Gætið sérstaklega að yngri börnum sem aðeins mega vera á sundlaugarsvæðinu í fylgd fullorðinna.

Gönguferðir

Gönguleiðir: Gönguferð inn Heydal. Gönguferð úr Húsadal niður í Heydal. Gönguferð upp á Eyrarfjall. Gönguferð upp að Selvatni.
Gönguferð kringum Vatnsfjarðarnes. Gönguferð úr Skötufirði yfir í Heydal.
Gönguferð úr Laugadal yfir í Heydal. Gönguferð úr Dýrafirði yfir í Heydal. Skemmtileg gönguleið er inn Heydal meðfram Heydalsá.

Sjá nánar undir "Umhverfi". Upp á Eyrarfjall er akvegur sem er ekki lengur í notkun. Upp frá Hörgshlíð er mjög torfarinn akvegur upp að Selvatni. Gamlar gönguleiðir eru úr Heydal yfir í Skötufjörð (5-6 tíma ganga), Laugadal (4-5 tíma ganga) og Dýrafjörð.

Ef fólk óskar er í boði að aka því á göngustað og skilja bílinn eftir á áfangastað í Heydal.

Veiði

Falleg bleikja er í Ausuvatni. Þangað er um tveggja tíma gangur. Veiðileyfi eru seld í Heydal.
Einnig er veiði í Fremra Selvatni (Veiðileyfi seld í Hörgshlíð og Heydal) og Laugarbólsvatni (Veiðileyfi eru seld í Laugarbóli).

Fuglalíf og plöntulíf

Mikið fuglalíf er í Heydal, spörfuglar, vaðfuglar, endur og ránfuglar. Komið hefur verið upp skiltum með fuglategundunum í Heydal, alls 43 tegundum. Þrjú skilti eru staðsett niðri í fjöru, þrjú skilti við hótelið og tvö skilti á tjaldsvæði við Heydalsá. Nálgast má gátlista á hótelinu og merkja við þá fugla  sem fyrir augu ber.
Mjög fjölbreytt plöntuúrval er í Heydal enda dalurinn allur kjarri vaxinn milli fjalls og fjöru. Birkiskógurinn í innri hluta dalsins er friðaður. Sjaldgæfasta plantan er skógelfting innst í dalnum. Talið er að hún hafi hjarað af jökulskeið ísaldarinnar. Hún vex aðeins í Ingólfsfirði og við Gerpi auk Heydals. Margar skógarplöntur hafa verið gróðursettar í samvinnu við Skjólskóga á svæðinu frá sjó að bænum. Unnið er að niðursetningu gróðurskilta meðfram göngustígum þar sem plöntum, sem vaxa á tilteknum stöðum, er lýst og greint frá notkun þeirra til lækninga, litunar o.s.frv. Heydalsbændur hafa einnig verið iðnir við að rækta grænmeti bæði heima við bæinn og inni í dal.

Norðurljósaferð

Norðurljósaferðir : þar sem þessar ferðir eingöngu hafa verið keyptar af útlendingum vísum við í ensku heimasíðuna.